Bókin Eikonomics: Hagfræði á mannamáli eftir Eirík Ástþór Ragnarsson kom út í síðustu viku. Bókin er byggð á röð pistla sem Eiríkur hefur skrifað í gegn um tíðina, en pistlarnir eru endurskrifaðir fyrir bókina og flokkaðir saman í nokkra yfirflokka.

Eiríkur segist með bókinni helst vilja vekja athygli á því hvað hagfræði geti verið fjölbreytt og jafnvel skemmtileg, enda nái hún yfir mun meira en bara verðbólgutölur og þjóðhagsspár. Frekar en að reyna að kenna lesandanum hagfræði vilji hann einfaldlega sýna honum hvernig hún er notuð og hvað er gagnlegt við það.

Veltir upp viðskiptaumhverfi landasala
Í bókinni veltir Eiki meðal annars vöngum yfir viðskiptaáætlun og afkomu landasala, auk þeirra áhrifaþátta sem móta rekstrarumhverfi þeirra. „Þar sem löglegt áfengi er æðri vara í samanburði við landa (sem er þá óæðri vara) þýðir það að fyrir þá sem eftir hrun höfðu minna á milli handanna og vildu ekki draga of mikið úr áfengisneyslu sinni á krepputímum, skiptu þeir hluta af sinni löglegu áfengisneyslu yfir í ólöglegan landa.“

Í ofanálag hafi gengishrun krónunnar hækkað verð löglegs áfengis. „Gögnin styðja hagfræðina. Árið 2010 hafði lögreglan hendur í hári 25 landa- og áfengissala. Síðan hefur áfengisverðið lækkað á ný og brotatíðnin sömuleiðis.“

Styrkirnir beint í vasa Harvey Weinstein
Þótt Eiki fjalli jafnan um hversdagsleg og nokkuð óumdeild málefni hefur hann af og til komist í hann krappann. Eitt þeirra skipta var þegar hann fór að skoða styrki til kvikmyndagerðar. „Ég vildi bara benda á að við getum ekki dælt endalaust í þetta. Það má vel vera að þetta sé frábær fjárfesting fyrir íslenskt samfélag, og við fáum tvær krónur til baka fyrir hverja sem við setjum í þetta, en það er samt sem áður gjöf frá mér og þér til Harvey Weinstein, og það er eitthvað sem við þurfum líka að skilja og vera meðvituð um.“

Eiki taldi sig hafa fjallað nokkuð hlutlaust og fræðilega um málefnið og átti sér því einskis ills von. „Ég fékk holskeflu yfir mig úr öllum áttum um að ég væri að reyna að tala niður iðnaðinn. Ég bara bjóst alls ekki við þessu,“ segir hann einlægur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .