HS Orka vinnur nú að aukningu á framleiðslugetu á heitu vatni í auðlindagarðinum í Svartsengi. Verkið felst í meginatriðum í nýrri vatnslögn frá vatnstökusvæði, nýrri dælustöð og búnaði í orkuveri til heitavatnsframleiðslu. Með framkvæmdinni eykst framleiðslugeta á heitu vatni til hitaveitunotkunar úr 460 sekúndulítrum í 580 sekúndulítra og er aukningin því rúm 25%. Framleiðsluaukningin krefst ekki borunar, því orkan sem nú er til reiðu í orkuverinu nægir. Heitt vatn frá auðlindagarðinum í Svartsengi er selt inn á dreifikerfi HS Veitna á Suðurnesjum.

Verklok eru áætluð í desember 2014 og heildarkostnaður við verkið er áætlaður rúmar 430 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.

Skrifað var undir verksamning í framhaldi af útboði við ÍSTAK í dag um smíði og uppsetningu á búnaði í orkuveri. Áður hefur verið samið við H.H Smíði um byggingu dælustöðvar og við Urð og Grjót ehf um vatnslögn frá Lágasvæði að orkuverinu. Verkið er hannað af Verkís. Eftirlitsaðili með smíði og uppsetningu á búnaði í orkuveri er Geir Þórólfsson og Tryggvi Pétursson. Eftirlitsaðili með byggingu dælustöðvar og með vatnslögn er Verkfræðistofa Suðurnesja, að því er segir í tilkynningunni.