Hæstiréttur vísaði nýlega máli á hendur torrent.is frá dómi, en í dómi Hæstaréttar er frávísun héraðsdóms staðfest að hluta en málinu að hluta vísað frá á öðrum forsendum.

Í dómi Hæstaréttar segir að í aðilaskiptum sem urðu eftir að dómur héraðsdóms féll felist breyting á grundvelli málssóknar sóknaraðila, sem ekki er talin heimild samkvæmt lögum um meðferð einkamála. Vegna þessa var málinu vísað frá Hæstarétti að því er varðar sóknaraðilana Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið - Samtök íslenskra kvikmyndagerðamanna og Félag hljómplötuframleiðenda, en aðilar innan þessara þriggja félaga töldu sig hafa tekið sjálfir við aðild málsins í stað félagsins, en slíkt var óheimilt eins og áður sagði.

Hvað Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) varðar féllst Hæstiréttur á að samtökin gætu farið með málsóknarumboð fyrir félagsmenn sína og átt aðild að lögbannsmálinu. Hins vegar lá ekki fyrir að félagsmenn STEFs hefðu veitt samtökunum umboð til að fara með einstaklingsbundnar kröfur fyrir dómstóla í sínu nafni. Því var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur hvað STEF varðar.

Lögbannið gengur úr gildi á miðnætti aðfararnótt föstudags 16. maí og hyggst eigandi vefsíðunnar torrent.is, Svavar Lúthersson, endurvekja síðuna samdægurs. Í frétt RÚV um málið kemur fram að Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Samtaka myndrétthafa á Íslandi, segi að samtökin muni fá nýtt lögbann á síðuna verði hún opnuð að nýju.

Dómur Hæstaréttar.