Gengi slóvenska ríkissímafélagsins, Telekom Slovenije hefur lækkað mikið frá áramótum og skv. Bloomberg telja greinendur að mögulega verði hætt við fyrirhugaða einkavæðingu félagsins. Vegvísir Landsbankans greinir frá þessu í dag.

Eins og áður hefur verið greint frá er móðurfélag Símans, Skipti, annar tveggja bjóðenda sem eftir eru í tilboðsferlinu.

Samkvæmt orðrómi hyggst fjögurra flokka ríkisstjórn Slóveníu sem verið hefur við völd í þrjú ár hætta við sölu eftirstandandi 49,13% hluta Telekom Slovenije vegna andstöðu tveggja flokka innan ríkisstjórnarinnar.

Áætlað var að Skipti yrði skráð í Kauphöll Íslands í lok síðasta árs skv. skilmálum þegar Síminn var einkavæddur. Félagið fékk hins vegar frest á skráningu í ljósi tilboðsferlisins í Slóveníu, segir í Vegvísi Landsbankans.