Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hafi með lúmskum hætti náð að hreiðra um sig í íslenskum stjórnmálum og setja viðmið í opinberri umræðu. Grein Steingríms er sú fyrsta af sex. Greinar hans verða á næstu vikum birtar í Viðskiptablaðinu og á vb.is.

„Á annasömum tímum hættir eflaust fleirum en höfundi til að dragast niður í úrlausnarefnin, lokast inni við hið hversdagslega amstur daganna. Vill þá farast fyrir að lögð séu niður amboðin og gengið á sjónarhól mannlífs og atburða, skyggnst um og horft jafnt um öxl sem fram á veginn. Hér verður á eftir og í nokkrum tengdum blaðagreinum gerð tilraun til að bæta þar úr hvað undirritaðan varðar,“ segir Steingrímur í upphafi greinarinnar

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar hreiðraði um sig

„Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar náði með lúmskum hætti að hreiðra um sig í íslenskum stjórnmálum og setja viðmið í opinberri umræðu. Er það einkum þrennt sem veldur því að sú skýring á við þegar litið er til orsaka bankahrunsins.

Í fyrsta lagi sá áróður að einkaaðilar gerðu yfirleitt allt betur en ríkið og því væri þeim best treystandi fyrir flestum hlutum. Í öðru lagi að til væri einhver ósýnileg hönd sem stýrði markaðsgangvirkinu og það sæi um að leiðrétta sig sjálft. Og í þriðja lagi að sökum þessarar sjálfgefnu innbyggðu skynsemi markaðarins þyrfti ekki að hafa eftirlit með honum eða að slíkt ætti að a.m.k. að vera í algjöru lágmarki.

Allar þessar þrjár forsendur höfum við nú séð að eru rangar. Til viðbótar þessu var samfélagið græðgisvætt enda er það í samræmi við hugmyndafræðina að af öllu megi hirða gróða hvort sem það eru hjartaþræðingar, heitt vatn eða mandarínur. Og loks vantaði ekki upp á yfirdrifið sjálfstraustið hjá íslenskum stjórnmála- og viðskiptamönnum. Unggæðingslegur hroki, blind trú á eigin snilli í viðskiptum, óþroskuð siðferðisvitund og alger skortur á heilbrigðri sjálfsgagnrýni bættu ekki ástandið.“

-Greinar Steingríms verða á næstu vikum birtar í Viðskiptablaðinu og á vb.is.