Vel kann að fara svo að sænska fjármálafyrirtækið Invik & Co, sem er í eigu Milestone, verði skráð að nýju innan tveggja til þriggja ára. Í samtali netútgáfu sænska viðskiptadagblaðsins Dagens Industri við Anders Fällman, forstjóra Invik, segir hann að vel geti svo farið að félagið komi inn á markað aftur en til að svo verði þurfi það að þrefaldast að stærð frá því sem nú er.

Invik kom inn í efnahag Milestone 30. júlí síðastliðin en afskráningu þess verður að fullu lokið 17. ágúst næstkomandi. Í viðtalinu útilokar Fällman ekki að fleiri geti komið inn í hluthafahóp Invik.

Invik & Co. AB skilaði 1,4 milljarða íslenskra króna hagnaði á fyrri hluta ársins. Hagnaðaraukning frá fyrra ári nemur 42%. Karl Wernersson er stjórnarformaður félagsins. Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone og Jóhannes Sigurðsson eru einnig í stjórn, auk þriggja Svía.


Milestone ehf. keypti ráðandi hlut í sænska fjármálafyrirtækinu Invik & Co. AB í apríl síðastliðnum og gerði öðrum hluthöfum jafnframt yfirtökutilboð. Heildarvirði viðskiptanna var um 70 milljarðar íslenskra króna. Invik & Co. er fjármálafyrirtæki með víðtæka starfsemi á sænskum trygginga- og fjármálamarkaði, auk þess sem félagið rekur sérhæfða bankastarfsemi í Lúxemborg.


Invik & Co hefur vaxið mikið á liðnum árum og starfrækir tryggingafélögin Moderna Forsäkringar og Moderna Forsäkringar Liv sem bjóða fjölbreyttar tryggingar á sænska markaðnum. Þegar tilkynnt var um kaupin í vor kom fram að margvísleg tækifæri voru talin liggja í auknu samstarfi Sjóvá, dótturfélags Milestone og þessara félaga.
Innan Invik & Co. eru einnig Assuransinvest, Banque Invik og Invik Funds, sem falla vel að starfsemi Askar Capital, dótturfélags Milestone. Heildartryggingaiðgjöld samstæðunnar námu um 12 milljörðum króna á árinu 2006. Eignir í umsýslu í verðbréfasjóðum námu um 162 milljörðum króna og í eignastýringu voru á sama tíma um 98 milljarðar króna.