Ákveðið hefur verið að sameina hugbúnaðarfyrirtækin Hug hf. og Ax hugbúnaðarhús hf. Hið sameinaða félag mun nefnast HugurAx. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar, en félögin eru dótturfélög Kögunar. Kögun er að meirihluta í eigu Dagsbrúnar.

HugurAx verður eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins með um 125 starfsmenn.

,,Með sameiningunni verður til afburða samstarfs- og þjónustuaðili fyrirtækja á sviði viðskiptalausna, stjórnendaupplýsinga og sérhæfðra hugbúnaðarlausna", segir Páll Freysteinsson, framkvæmdastjóri hins sameinaða fyrirtækis.

Samtals eru viðskiptavinir Hugar og Ax hugbúnaðarhúss um 4.000 talsins. Hið sameinaða fyrirtæki, HugurAx, byggir á traustum grunni en Hugur var stofnað árið 1986. Ax hugbúnaðarhús var stofnað árið 1999 með sameiningu gamalgróinna hugbúnaðarfyrirtækja. Bæði Hugur og Ax hafa gullvottun Microsoft sem ,,Microsoft Gold Certified Partner", sem er staðfesting á því að starfsmenn hafi yfirburðaþekkingu á lausnum Microsoft. Rekstur beggja fyrirtækja gengur mjög vel og mörg spennandi verkefni eru framundan.

Sigríður Olgeirsdóttir sem verið hefur framkvæmdastjóri Ax hugbúnaðarhúss hf. hefur að eigin frumkvæði ákveðið að láta af störfum. Stjórn Kögunar hf. þakkar Sigríði farsæl störf og góðan árangur í þágu félagsins og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.