Neytendastofa kannaði nýverið verðmerkingar í gæludýraverslunum, hundasnyrtistofum og vefsíðum þeirra. Í byrjun nóvember var farið í 10 gæludýraverslanir og fjórar hundasnyrtistofur á höfuðborgarsvæðinu.

Gerðar voru athugasemdir vegna verðmerkinga hjá sex fyrirtækjum. Í verslunum Dýralæknamiðstöðvarinnar Grafarholti og Gæludýr.is í Smáratorgi voru verðmerkingar ekki í lagi. Verðskrá vantaði yfir alla þjónustu hjá hundasnyrtistofunum Kátir hvuttar, Molakot, Dekurdýr, Dýrin.is (Dýralæknamiðstöð Grafarholts) og Hundavinir.is auk þess vantaði upplýsingar um fyrirtækin á vefsíðum þeirra.

Athugað var hvort vörur í verslununum væru verðmerktar og hvort verðskrá yfir þjónustu hundasnyrtistofa væri sýnileg. Verðskrá yfir alla þjónustu á að vera birt með áberandi hætti þar sem þjónustan er veitt.