Húsavíkurbær hefur ákveðið að ganga til samninga við Þekkingu hf. um heildarumsjón tölvumála bæjarins. Tölvusalur Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verður hagnýttur fyrir allan miðlægan búnað bæjarins, stofnanir hans og tengd fyrirtæki. Gagnaflutningar fara m.a. fram um ljósleiðara á vegum Orkuveitu Húsavíkur og breytingar verða gerðar á högun og virkni tölvukerfanna til að tryggja hámarksnýtingu og samræmt kerfi.

Þekking hf. hefur haft umsjón með tölvumálum Borgarhólsskóla á Húsavík frá 2003. Þar hefur mikil uppbygging farið fram á undanförnum árum sem að nokkru leyti er höfð til hliðsjónar við nýjan samstarfsgrundvöll aðilanna.

"Þetta gefur okkur langþráð tækifæri á að stórefla þjónustu við Húsavík og nágrenni" segir Magnús Þ. Snædal gæða- og starfsmannastjóri Þekkingar hf. i tilkynningu frá félaginu.

"Við erum með ýmsar hugmyndir í því sambandi", bætir hann við, "en það verður að bíða betri tíma að útlista það, enda farsælast að láta verkin tala." Fjöldamörg fyrirtæki á Húsavík eru með sín tölvumál hjá Þekkingu hf.

"Ég tel þetta afar hagstæðan samning fyrir okkur sem ekki aðeins mun færa okkur umtalsverðan sparnað heldur skerpir heildarmynd og samhæfni allra fyrirtækja og stofnana sveitarfélagsins í upplýsingatæknimálum." segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Húsavíkurbæjar sem hafði umsjón með samningunum fyrir hönd bæjarins.