Sigurður Bollason keypti 1,37% í Landsbankanum í júlí og ágúst 2008. Bréfin keypti hann í gegnum félag sitt Sigurður Bollason ehf. sem nú heitir BSU ehf. Alls voru 3,5 milljarðar króna greiddir fyrir hlutabréfin og lánaði Landsbankinn fyrir kaupunum að öllu leyti. Samkvæmt ársreikningi Sigurðar Bollasonar ehf. fyrir árið 2008 námu skuldir félagsins rúmlega 4,5 milljörðum króna og voru bréfin í Landsbankanum niðurfærð.

Lánveitingar til Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum eru til rannsóknar hjá Embætti sérstaks saksóknara og tengdust húsleitir í dag meðal annars lánveitingunum. Einnig eru til rannsóknar lánveitingar til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited og Pro-Invest Partnes Corp.

Í frétt Stöðvar 2 um málið frá því í október 2009 keypti Sigurður einnig hlut í Glitni í gegnum félag sitt S.Á. Bollason ehf. „Sigurður keypti einnig hlut í Glitni á síðasta ári í gegnum félag sitt S.Á. Bollason ehf. Sigurður greiddi rúma fjóra milljarða fyrir hlutinn og eftir því sem næst verður komist var Glitnir bæði söluaðili hlutanna og lánveitandi. Hlutabréf í Glitni eru einskis virði í dag og félagið skuldar 4,6 milljarða.

Þriðju hlutabréfkaup Sigurðar á síðasta ári voru kaup á 1,16% hlut í Existu í gegnum félag sitt S. Bollason ehf. Hluturinn kostaði um 1,5 milljarð og tók félagið lán fyrir kaupunum á hlutnum,“ segir í frétt Stöðvar 2.

Félög Sigurðar skilja því eftir sig um ellefu milljarða króna skuld vegna hlutabréfakaupa í Landsbankanum, Glitni og Existu á árinu 2008.

Árétting:

Sigurður Bollason hefur ekki réttarstöðu sakbornings í framangreindri rannsókn og ekki var gerð húsleit a heimili hans samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum. Samkvæmt sömu upplýsingum er rangt, sem fram kemur í frétt hér að ofan, að Sigurður hafi ekki lagt fram eigið fé þegar félag hans keypti hlutabréf í Landsbankanum sumarið 2008. Í fréttum Stöðvar 2 daginn eftir að fluttar voru fréttir af þessum viðskiptum 20. október 2009 kom Sigurður því sjálfur á framfæri að persónulegt tap hans á viðskiptunum hefði verið verulegt meðal annars vegna ábyrgða sem hann lagði fram.