Meðal þeirra mála sem tengjast húsleitum Embættis sérstaks saksóknara í dag eru kaup Landsbanka Íslands á lánasafni Landsbankans í Lúxemborg.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er fjallað um flutning áhættuskuldbindinga frá Landsbankanum í Lúxemborg til landsbanka Íslands. Segir að talsverður hluti áhættuskuldbindinga Landsbankans í Lúxemborg hafi verið lán sem veitt höfðu verið með sjálfskuldarábyrgð móðurfélagsins, þ.e. Landsbanka Íslands. Alls var um að ræða 562 milljónir evra, sem var um 41,31% af heildaráhættuskuldbindingum Landsbankans í Lúxemborg þann 31. mars 2008.

Í aðdraganda að falli bankanna var farið fram á að stórar áhættuskuldbindingar var farið fram á að stórar áhættuskuldbindingar með ábyrgð móðurrfélagsins yrðu fluttar að fullu til Landsbanka Íslands, að því er segir í rannsóknarskýrslunni. Kom beiðni um þá færslu frá forsvarsmönnum Landsbankans í Luxemborg. Um ellefu aðila var að ræða með samtals 784 milljóna evra lán.

Í rannsóknarskýrslunni er að finna eftirfarandi töflu yfir þær skuldbindingar sem færðar voru til Landsbanka Íslands frá Lúxemborg:

Lántakandi á samstæðugrundvelli Upphæð, m. evra

Björgólfur Thor Björgólfsson                             225,14

Erna Kristjánsdóttir                                             146,53

Magnús Þorsteinsson                                        134,08

Páll Þór Magnússon/ Sund                                65,06

Hafnarhóll ehf.                                                      45,51

Pro-Invest Partners Corp.                                   40,75

Róbert Wessman                                                 37,21

Sigurður Bollason                                                 33,76

Inmo Alova S.I.                                                        24,59

Björgólfur Guðmundsson                                     18,51

Hunslow S.A.                                                         13,03

Samtals: 784,14

„Stærsti lántakandinn sem færslan náði til er Björgólfur Thor Björgólfsson, með um 225 milljónir evra, en þar á meðal var 153 milljóna evra lán sem veitt var í lok september 2008. Rúmar 65 milljónir evra voru veittar til þriggja félaga að fullu í eigu Sunda ehf. (undir Páll Þór Magnússon í töflu). Upphafsdagur þessara lána er í september 2008. Þó hefur rannsóknarnefnd Alþingis einnig undir höndum gögn sem virðast sýna að þessi lán hafi verið veitt í mars 2008, í framhaldi af því að CFD-samningar (e. contract of difference) milli Sunds ehf. og Landsbankans um sömu hluti runnu út.166 Veðin á bak við þessi lán voru hlutabréf í Glitni,“ segir í Rannsóknarskýrslunni.

Þá segir einnig:

„Að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbankans, föluðust viðskiptavinir bankans eftir því að taka lán í gegnum Landsbanki Luxembourg þar sem litið væri svo á að bankaleynd væri til staðar í Lúxemborg en á Íslandi væri ekki hægt að treysta á slíkt. Til þess að koma til móts við kröfur viðskiptavina bankans en án þess að þó brjóta reglur um stórar áhættuskuldbindingar sem voru við lýði í Lúxemborg voru lánin því veitt í gegnum Landsbanki Luxembourg en með ábyrgð móðurfélagsins.

Í reynd má því líta svo á að Landsbanki Íslands hafi veitt lánin en að afgreiðslan hafi farið fram í gegnum Landsbankann í Lúxemborg og því féllu þau undir þarlend lög um bankaleynd. Stór lán höfðu „til margra ára“ verið afgreidd með þeim hætti, en samkvæmt skýrslu Sigurjóns Þ. Árnasonar máttu bankar í Lúxemborg vera með „ótakmarkaða áhættu á móðurfélagið“, sem var öfugt við þær reglur sem voru t.a.m. við lýði í Bretlandi.“