Um fátt annað er rætt í íslensku þjóðfélagi þessa dagana en ný húsnæðislán bankanna. Viðskiptaþátturinn á Útvarpi Sögu lætur ekki sitt eftir liggja, enda hefur hann það fyrir satt að umræðan nái inn á flesta bari þessa lands og lifi einnig góðu lífi í leigubílunum. Tveir sérfræðingar frá KB banka og SPH verðbréfum líta við og velta fyrir sér áhrifum lánanna á íslenskt þjóðfélag.

Í þættinum í dag verður einnig rætt við markaðsstjóra IKEA, en IKEA hefur hafið nýtt markaðsár. Þá segir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins frá átaki um að fá fólk til að kaupa frekar íslenskar vörur en erlendar. En við spyrjum: Eiga ekki verð og gæði að ráða för?

Við heyrum líka í dag í aðstoðarforstjóra Latabæjar, en áhorfstölur frá Bandaríkjunum sýna að Latibær var vinsælasti barnaþátturinn í Bandaríkjunum í frumsýningarviku sinni og fer þáttaröðin því einkar vel af stað.

Viðskiptaþátturinn hefst klukkan 16 og er sendur út á Útvarpi Sögu FM 99,4. Þátturinn er endurfluttur klukkan eitt í nótt.