Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins fara nokkrir Íslendingar yfir árið sem leið. Edda Sif Pálsdóttir, dagskrárgerðarkona á Stöð 2, segir þetta hafa verið viðburðarríkt ár sem hafi átt sínar hæðir og lægðir.

Viðburður ársins? 2-0 sigur Íslands á Hollandi á Laugardalsvelli í október. Eitthvað skemmtilegt á skilið að vera viðburður ársins, þetta voru magnaðir tveir tímar og þetta lið hefur fært okkur ómælda gleði upp á síðkastið!

Hneyksli ársins? Lekamálið. Frá A til Ö.

Frétt ársins? Gosið sem var svo ekki gos. En var svo gos. Eða eitthvað.

Klisja ársins? Er þetta frétt?

Hetja ársins? Björgunarsveitarmenn í Bleiksárgljúfri sem lögðu í gríðarlega flókna leit við erfiðar og hættulegar aðstæður.

Óvænt ánægja ársins? Sindri Sindrason.

Stjórnmálamaður ársins? Jón Gnarr.

Lag ársins? Hossa hossa með Amaba Dömu. Gleðin og vaggið var kærkomið.

Bömmer ársins? Að farþegaflugvél geti horfið út í veður og vind með 239 manns innanborðs árið 2014 og við vitum ekkert!

Heilt yfir, hvernig var árið? Það var mjög viðburðaríkt og átti sínar hæðir og lægðir eins og öll ár. Sumarið kom aldrei og það var frekar fúlt en Justin Timberlake kom hins vegar og það var mjög gaman! Ebóla, stríðsástand, verkföll og horfnir læknar. Við komumst hins vegar á EM í körfubolta, HM í handbolta og einhverjir geta glaðst yfir leiðréttingunni. C’est la vie!