Hvalasafnið á Húsavík fær 14.000 dali, eða um 1,7 milljón króna, í styrk frá auðugum bandarískum hjónum. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Í fréttinni segir að hjónin eigi ferðaskrifstofu og  hafi fyrst komið til Íslands með einkaþotu árið 2001. Stórt skemmtiferðaskip á þeirra vegum siglir til Húsavíkur um helgina.

Að sögn framkvæmdastjóra Hvalasafnsins hrifust þau strax af safninu.„Þegar þau heyrðu af baráttu  okkar við að fá til Húsavíkur beinagrind af steypireyði sem Náttúrufræðistofnun er með hjá sér núna langaði þau að hjálpa til,“ segir Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík í samtali við Fréttablaðið.

„Féð fer allt til verkefnisins sem snýr að því að fá steypireyðargrindina, hér á hún heima,“ segir Einar. Sérstök móttökuathöfn verður fyrir hjónin á sunnudag.