Lítið er vitað hvað orðið hefur um Jang Song Thaek, eiginmann frænku einræðisherrans Kim Jong-Un, varaformaður varnarmálanefndar Norður Kóreu og af mörgum talinn annar valdamesti maður landsins. Erlendir fjölmiðar segja lítið hafa heyrst af Jang Song Thaek síðan nánir aðstoðarmenn hans voru teknir af lífi í síðasta mánuði. Sumir telja að honum hafi verið steypt af valdastóli, aðrir útiloka ekki að hann hafi verið tekinn af lífi. En hvað af honum er orðið vita fáir.

Jang er 67 ára, giftur systur Kim Jong Il, föður Kim Jong-Un, og hjálpaði einræðisherranum unga að fóta sig í valdastóli eftir að Kim Jong Il féll frá fyrir að verða tveimur árum. Þá eru aftökur og breytingar á valdamönnum innan hers Norður-Kóreu skrifaðar á hans reikning.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir að síðast hafi sést opinberlega til Jang Song Thaek 6. nóvember síðastliðnum á fundi með japönskum ráðamönnum. Blaðið segir þetta ekki í fyrsta sinn sem Jang Song Thaek hverfur úr kastljósinu. Það gerðist síðast árið 2003. Hann birtist á ný í því þremur árum síðar. Af þeim sökum megi ekki draga of miklar ályktanir af hvarfi hans. Þriðjudaginn 17. desember verður minnst þess í Norður Kóreu að tvö ár verða þá liðin frá andláti Kim Jong Il. Vera megi að mágur hans birtist þá á ný í röðum annarra ráðamanna í Norður Kóreu.