Mitt meginhlutverk hjá Evris er að tengja íslensk fyrirtæki við erlenda fjárfesta, en við erum jafnframt að aðstoða íslensk fyrirtæki í nýsköpunarumhverfi við umsóknir um styrki til Evrópusambandsins," segir Hulda Pjetursdóttir, sem nýverið hóf störf sem ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Evris og bætir við að það hafi aldrei verið mikilvægara fyrir íslenskt efnahagslíf að fá inn erlent fjármagn og nú.

Evris sérhæfir sig í að aðstoða fyrirtæki við að sækja styrki og fjármagn á alþjóðlegum vettvangi og að sækja á nýja markaði í samstarfi við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Inspiralia. Evris er með skrifstofu í Grósku þar sem öflug fyrirtæki af öllum stærðum þróa hugmyndir sínar.

Hulda segir fyrirtækin pöruð við fjárfesta í gegnum tengslavettvang Inspiralia sem kallast GRECA. „Á GRECA eru yfir 1.200 fjárfestar skráðir. Fjárfestarnir stilla sínar kríteríur, til dæmis tiltekna markaði, lönd eða þess háttar, þannig að þetta er mjög skilvirkur tengslavettvangur. Þetta hefur í gamni verið kallað Tinder fyrir fyrirtæki og fjárfesta," segir Hulda og hlær.

Tilviljanakenndur og skemmtilegur starfsferill

Spurð út í starfsferilinn segir Hulda hann alltaf hafa verið mjög tilviljunarkenndan. „Ég hef aldrei sest niður og gert einhvers konar fimm ára áætlun, sem betur fer. Vendingarnar hafa alltaf verið óvæntar en upp úr stendur að ég hef alltaf unnið skemmtileg störf, á skemmtilegum vinnustöðum og með góðu samstarfsfólki."

Þannig bauðst henni sem dæmi óvænt að vinna í Naíróbí í Kenía í eitt og hálft ár. „Ég ákvað bara að slá til þótt ég vissi ekkert almennilega út í hvað ég væri að fara. Ég var rekstrarstjóri fyrir norskt fyrirtæki sem var í gufuaflsvirkjunum þar í landi. Hver einasti dagur í Kenía var ævintýri og áskorun að aðlaga sig að menningunni þar."

Hún segir það hafa verið gefandi að starfa í Kenía og vinna með heimamönnum. „Það sem upp úr stóð er mikilvægi menntunar til að framþróun geti átt sér stað.  Verkefnið var í sjálfu sér líka áhugavert þar sem einkaaðilar og opinberir unnu saman að því að auka lífsgæði fólks."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .