Fjölskyldur sem misstu fjölskyldumeðlim í mannskæðu Boeing 737 Max flugslysunum munu hver um sig fá um 144.500 dollara í skaðabætur frá Boeing, eða sem nemur um 18 milljónum króna. BBC greinir frá þessu.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um þá áttu sér stað tvö mannskæð flugslys með skömmu millibili, þar sem 737 Max þotur Lion Air og Ethopian Airlines hröpuðu til jarðar. Fyrra slysið gerðist í október á síðasta ári og hið síðara í mars á þessu ári. Skömmu eftir seinna slysið voru allar Boeing 737 Max flugvélar í heiminum kyrrsettar. Galli í stýrikerfi flugvélanna er sagður orsakavaldur slysanna.

Bótagreiðslurnar munu koma frá 50 milljóna dollara varasjóði í eigu Boeing. Sjóðurinn er þegar byrjaður að samþykkja bótagreiðslur, en ættingjarnir þurfa að krefjast bóta áður en árið 2020 gengur í garð.

Lögmenn fjölskyldna fórnarlamba flugslysanna, sem hyggjast mörg hver höfða mál á hendur Boeing fyrir dómi, hafa gagnrýnt ofangreindan sjóð og segja hann vera markaðsbragð (e. publicity stunt).

Að sögn Nomaan Husain, sem er lögmaður 15 fjölskyldna sem misstu nákominn fjölskyldumeðlim í slysunum, segir að bótagreiðslan sé langt frá því að vera ásættanleg fyrir fjölskyldurnar. Þær séu fyrst og fremst á höttunum eftir svörum frá Boeing.