Kvikmyndahúsagestir voru 1,4 milljónir talsins hér á landi í fyrra. Þetta er 3% samdráttur á milli ára, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Þetta jafngildir því að hver einasti landsmaður hafi farið að meðaltali 4,5 sinnum í bíó í fyrra. Bíógestir greiddu 1.525 milljónir króna fyrir bíómiðana í fyrra.

Hagstofan segir að aðsókn í kvikmyndahús hafi dregist saman um 12% síðan árið 2009.

Kvikmyndahúsagestum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði lítillega á milli áranna 2012 og 2011 en utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði þeim um 16% á milli ára.

Þá segir Hagstofan að sýndar voru 218 leiknar kvikmyndir á almennum sýningum í fullri lengd í fyrra. Af þeim var ríflega helmingurinn bandarískar myndir. Breskar, franskar, þýskar og norrænar myndir voru 29 prósent.