„Hver ræður?“ er yfirskrift ráðstefnu ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, sem haldinn verður á þriðjudaginn. Á ráðstefnunni verður kynnt könnun, sem Capacent gerði fyrir ÍMARK,  en í henni voru forstjórar og framkvæmdastjórar íslenskra fyrirtækja spurðir út í markaðsmál. Þeir voru spurðir hvar markaðsmálin eru staðsett innan fyrirtæja og að hvaða málefnu markaðsdeildir hafa aðkomu.

,,Markaðsstörf eru kjarninn í starfsemi nútíma fyrirtækja. Samvinna og verkaskipting markaðsdeilda og annarra deilda skipta miklu máli fyrir velgengni á markaði. Mikill munur er á hvernig þessum málum er háttað hjá mismunandi fyrirtækjum. Ráðstefnan er innlegg í uppbyggilega umræðu um ólíkar leiðir til árangurs,“ segir Dr. Friðrik Larsen, stjórnarformaður ÍMARK.

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. 9. Fimm forstjórar og framkvæmdastjórar munu halda erindi um hvernig markaðsmálum er háttað í þeirra fyrirtækjum. Þetta eru þau Gísli Steinar Ingólfsson, forstöðumaður vöruþróunar hjá Capacent, Birkir Hólm, forstjóri Icelandair, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.