*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 7. apríl 2019 14:05

Hvergi grafnir tveir skurðir

Forstjóri GR segir þá sögu ekki sanna að við ljósleiðaravæðingu borgarinnar að sama gatan hafi verið grafin upp tvisvar.

Höskuldur Marselíusarson
Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur segir viðsnúning í rekstri félagsins á síðasta ári bara vera upphafið af því að félagið bæti skuldastöðu sína og afkomu eftir 10 ára fjárfestingartímabil.
Haraldur Guðjónsson

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, byrjaði laust fyrir aldamótin að vinna fyrir fjarskiptageirann þegar hann lagði fyrstu ljósleiðarastrengina hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið viðloðandi fjarskipta- og ljósleiðaraheiminn síðan, fyrst í Danmörku, síðan Dublin á Írlandi og þá í London og víðar á Englandi áður en hann kom aftur heim, lauk MBA prófi og tók við stjórn Gagnaveitu Reykjavíkur árið 2015.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir hann það hafa náðst nú í upphafi árs að helmingur allra íbúða landsins væri tengdur ljósleiðara, en eins og gefur að skilja er mun stærri hluti sem getur tengst honum. Með allri þessari nýju tækni hefur nettengingin inn á íslensk heimili orðið mun hraðari.

„Það er ekki langt síðan einungis 1% íslenskra heimila notaði ljósleiðara, eða um 10 ár, svo þróunin hefur verið mjög hröð. Upp úr 2000 verður mikil fjölgun þeirra sem voru með ADSL tækni og svo upp úr 2010 kom VDSL/ljósnet, sem var hraðari nettenging sem fólst í að gamla kopartengingin í símalínunum var þá nýtt til að tengjast við ljósleiðara sem náði út í skáp úti í götu. Þetta var bara mjög eðlilegt skref í þróuninni sem öll símafyrirtæki tóku. Það hjálpaði auðvitað til og var gott framtak enda hefur Ísland verið í fyrsta sæti yfir þjóðir með aðgengi að netinu, nánast 100% aðgang,“ segir Erling Freyr.

„Á þessu tímabili fór nethraðinn á íslenskum heimilum úr nokkrum megabitum á sekúndu upp í allt að hundrað, þó það fari eftir lengd og gæðum koparsins, en síðan um og upp úr aldamótum, þá koma fjölmörg spræk ný fyrirtæki inn á markaðinn að selja nettengingar, fyrst Hringiðan og Vodafone, sem þá hét Íslandssími og þá hófst samkeppnin. Þá var það ekki bara Síminn og Míla sem notuðu koparinn, heldur gerðu Vodafone, Hringiðan, Tal, Hive, Halló frjáls fjarskipti og fleiri það líka. Upp úr 2007 hefst svo ljósleiðaravæðing heimilanna af einhverjum krafti. Þessir aðilar vildu hafa val um fleiri dreifikerfi.“

Sagan ekki sönn þó holur hafi verið grafnar

Þónokkur umræða hefur verið um það á Íslandi að ólíkt dreifikerfi raforku sem þjónar öllum raforkunotendum og söluaðilum þá hafi verið miklu sóað til með byggingu tveggja samskiptakerfa og jafnvel hefur því verið haldið fram að sama gatan hafi verið grafin upp tvisvar.

„Það sem gert hefur verið frá upphafi í öllum endurnýjunum, hvort sem það er við hitaveitu eða vatnsveitu, eða við byggingu nýrra hverfa, er að innviðafyrirtæki hafa tekið þátt í framkvæmdum og lagt fjarskiptalagnir ofan í skurði sem veitufyrirtæki hafa grafið, því langstærsti kostnaðurinn við uppbyggingu fjarskiptakerfa er jarðvinnan, skurðgröfturinn, ekki rörin og fjarskiptakaplarnir.

Þannig að bæði við og Míla höfum verið dugleg að leggja lagnir. Þessi fyrirtæki eru auðvitað í samkeppni en við skoðuðum það hvort við hefðum einhvers staðar grafið tvo skurði. Það eina sem við fundum var að við 18 hús í Kópavogi tók það tvo daga að loka ákveðnum skurðum sem þjóna áttu báðum fyrirtækjum. Svo það var aldrei neitt um það að grafnir hefðu verið tveir skurðir, sú saga er ekki sönn,“ segir Erling Freyr.

„Það jákvæða við þetta er að eftir öll þessi ár þar sem lögð hafa verið tvö rör í alla skurði í öllum endurnýjunum er að það er mikið til af þeim. Það sést best í því að þegar ákveðið var af Símasamstæðunni að setja kraft í það að leggja ljósleiðara gat hún gert það mjög hratt og ljósleiðaravætt stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu því þeir áttu rör í jörðu þó stundum hafi fyrirtækið þurft að grafa holur til að komast að þeim. Sumir upplifa þetta sem tvo skurði en það er það ekki í raun.

Árið 2018 lögðu Gagnaveitan og Míla svo fram ósk við Samkeppniseftirlitið um að það myndi leyfa okkur að leggja lagnir í sínu hvoru lagi, og selja síðan, röra- og ljósleiðaratengingar fyrir hvort sitt hverfið, og fengum. Það þýðir að ef við erum að leggja, þá leggjum við eitt rörakerfi með ljósleiðarastrengjum fyrir okkur og annað fyrir Mílu sem við seljum þeim svo og ef þeir eru að grafa leggja þeir fyrir sig og okkur og selja okkur. Það góða við þetta er lægri kostnaður, og neytandinn mun hafa val um hvort fyrirtækið sem er að keppa um innviðina hann skiptir við.“

Hver klukkustund dýr ef netið fer

Hann hvetur því fyrirtæki að reikna hvað hver klukkustund án netsambands kosti fyrirtækið ef eitthvað komi upp á. „Það eru alltaf færri og færri tölvurými inni í fyrirtækjunum sjálfum, og fyrirtæki verða að vera meðvituð um hvað þau þurfi að gera til að tryggja að þau séu alltaf tengd. Það gæti kostað heilan dag ef eitthvað klikkar í ljósleiðara sem væri grafinn einhvers staðar í jörð og fyrirtæki þurfa að vita hvað það myndi kosta félagið.

Ég myndi segja að flest öll stórfyrirtækin séu vakandi yfir þessu, og mörg þau minni, en ekki öll. Það er ekki ásættanlegt lengur fyrir fyrirtæki að fjarskiptakerfin klikki, hvort sem það er símkerfið, tölvukerfið eða einhvers konar tenging við internetið, og því þurfa þau í dag að vera með tvær aðskildar tengingar með einhverjum hætti inn í fyrirtækið, frá sínu hvoru innviðafyrirtækinu og helst frá sitt hvoru fjarskiptafélaginu.

Önnur getur auðvitað verið með kopar eða öðrum hætti, en ég hvet fyrirtæki til að hafa þetta í huga, og svo auðvitað þá aðila sem ekki hafa fengið sér ljósleiðara til að gera það. Það skiptir ekki máli frá hverjum hann er, þið eruð að fá margfaldan hraða, meiri snerpu og svo ýmsa möguleika til að auka tengigetu inn á heimilinu eða í fyrirtækinu, til dæmis með góðu þráðlausu neti. Það er til dæmis ekki óalgengt að heimili geti verið með 20 til 50 tæki tengd netinu inn þegar allt er talið og er sú þróun rétt að byrja.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.