Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér ályktun vegna fyrirhugaðs verkfalls flugvirkja. Flugvirkjar hafa boðað til sólarhrings verkfalls á mánudaginn nk. og þá stefnir í ótímabundið verkfall frá og með 19.júní, ef samningar nást ekki fyrir þann tíma.

Í ályktuninni hvetja Samtök ferðaþjónustunar samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í kjaradeilunni. Komi til aðgerða hafi það í för með sér ófyrirsjáanlegan skaða fyrir ferðaþjónustuna. Flugsamgöngur eru lífæð ferðaþjónustunnar og nú á sumarmánuðum sé gífurlega mikilvægt að halda flugsamgöngum opnum. Jafnframt segir að aðgerðir flugstarfsmanna á vormánuðum hafi haft slæm áhrif á greinina en í ljósi þess að nú sé háannatími í ferðaþjónustu geti skaðinn orðið mun meiri.

Orðrétt segir í ályktuninni:

„Ferðaþjónustan er afar viðkvæm atvinnugrein og má við litlum áföllum ásamt því að afleiddar atvinnugreinar eiga mikið undir að flugsamgöngur til og frá landinu haldist opnar. Á vormánuðum hættu ferðaskipuleggjendur erlendis við fjölmargar ferðir hingað til lands og eru þeir nú þegar að íhuga að hætta við ferðir með hópa sína til landsins á næstu dögum. Ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannastaðar er í mikilli hættu, enda eru öruggar samgöngur til og frá landinu eitthvað sem verður að vera hægt að treysta á.“