Enginn vilji er til þess meðal stjórna lífeyrissjóðanna að framlengja samkomulagi við Seðlabanka Íslands um hlé á fjárfestingum erlendis að því er Fréttablaðið greinir frá. Samkomulagið rennur út í næstu viku.

Er það sagður sameiginlegur skilningur forsvarsmanna helstu sjóðanna að endurnýja ekki samkomulagið sem varað hefur í sex mánuði til að bregðast við miklum samdrætti útflutnings af völdum kórónuveirufaraldursins. Þar áður hafa gjaldeyriskaup sjóðanna numið um 10 milljörðum króna á mánuði.

Þó þannig hafi verið reynt að halda stöðugleika á gjaldeyrismarkaði hefur gengi krónunnar gefið eftir um liðlega fimmtung, en til viðbótar við minna útflæði hefur hrein gjaldeyrissala Seðlabankans numið yfir 200 milljónum evra eða sem samsvarar 33 milljörðum króna.