Sveitarfélögin Garður, Sandgerði, Reykjanesbær og Vogar auk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Bláa Lónsins og Keilis – Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs hafa stofnað Heilsufélag Reykjaness um uppbyggingu á heilsutengdum tækifærum á Reykjanesi. Meginmarkmið félagsins er að skapa 300 störf á heilbrigðissviði á Reykjanesi á næstu þremur árum.

Í tilkynningu kemur fram að Heilsufélag Reykjaness er stofnað á grunni þeirra tækifæra sem Reykjanes býr yfir á sviði heilsu og vellíðunar. Markmið félagsins eru fólgin í markaðssetningu Íslands sem lands hreysti, fegurðar og heilsu. Heilsutengd ferðaþjónusta mun leiða til aukinnar fjölbreytni atvinnulífs á Reykjanesi, skapa ný störf og auknar gjaldeyristekjur.