Fyrir nokkrum vikum opnaði Facebook fyrir nýja virkni á síðum sínum, því nú geta menn notað snjallsíma sína til þess að senda myndskeið, löng eða stutt, beint út á vefinn. Vera í beinni.

Með þessu vildi Facebook vafalaust bregðast við samkeppni, svipaðar útsendingar hafa verið mögulegar með öppum eins og Periscope (Twitter) og Meerkat um nokkra hríð, en Snapchat er svo sem ekki víðs fjarri heldur. Á Facebook er hins vegar tilbúinn áhorfendahópur, sem þarf ekki að tileinka sér nýtt app til þess að horfa, þar er auðvelt að deila myndskeiðunum áfram og svo framvegis. Í raun má segja að hið eina, sem þar vanti sé einhver leið til þess að kynna yfirvofandi útsendingar fyrirfram. Það kemur örugglega.

* * *

Hann þarna Zuckerberg og vinnufólk hans á Facebook hefur örugglega ætlað sér að græða ógrynni fjár á Facebook Live, eins og þessar beinu útsendingar á Facebook nefnast. Það mun vafalaust ganga eftir.

Hitt sá hann hins vegar greinilega ekki fyrir, að Facebook Live kynni að reynast jafnafdrifaríkur fréttamiðill og á daginn er komið. Að hann kynni jafnvel að breyta fjölmiðlun töluvert.

Miðvikudag í fyrri viku gerðist það nefnilega að lögregluþjónn í Minnesota stöðvaði svartan ökumann, að sögn vegna bilaðs afturljóss, en eftir stutt orðaskipti skaut lögregluþjónninn ökumanninn til bana.

Þetta hefði kannski aðeins orðið enn einn óheilladagurinn í ömurlegri kynþáttasögu Bandaríkjanna. Nema fyrir það að í farþegasætinu sat Diamond Reynolds, unnusta ökumannsins, með snjallsíma í höndunum og hóf beina útsendingu og lýsingu á ósköpunum á Facebook.

Þar sat hún með sundurskotinn og blóði stokkinn unnusta sinn nánast í fanginu. Hún var vafalaust í einhverskonar losti, en pollróleg og skýr í máli um það sem átt hafði sér stað, með- an lögregluþjónninn stóð æpandi yfir henni enn með byssuna reidda. Í aftursætinu sat fjögurra ára dóttir hennar og reyndi að hugga mömmu sína, sem gerði myndskeiðið enn áhrifameira. Og það hélt áfram og áfram, jafnvel eftir að lögreglan skipaði þeim mæðgum út úr bílnum, enn með vopn á lofti og þeyttu símanum úr höndum hennar.

* * *

Nú er það svo sem ekki nýtt að tækninýjungar breyti fjölmiðlun. Það má heita regla að það gerist (og þekktist raunar í listasögunni löngu fyrir daga fjölmiðla). Menn hafa áður skrifað mikla bálka um hvernig sjónvarps- útsendingar úr Víetnam-stríðinu breyttu gangi þess inni á bandarískum heimilum. Gervihnattasjónvarp breytti fréttaflutningi í lokuðum löndum í lok kalda stríðsins, myndbandsupptakan af barsmíðum lögreglunnar í Los Angeles á Rodney King hafði áhrif bæði á söguna og fjölmiðlun, áhrif félagsmiðla á mótmæli frjálslyndra í Íran fyrir áratug eru velþekkt, að ekki sé minnst á arabíska vorið alræmda.

En það, að það sé sent beint út af vettvangi, að ótíndur almúginn geti —nánast milliliðalaust — sent beint út til alþýðunnar, það er nýtt. Þýðing þess er auðvitað sérstök í tilfelli eins og þessu, því hvert eiga menn að leita hjálpar undan árás þegar það er lögreglan sem heggur? Jú, menn leita ásjár almennings.

* * *

Á eftir sigldu ýmsar fréttir aðrar, sem tengdust kynþáttasamskiptunum vestra með ýmsum hætti. Þar á meðal þegar fjölmenn og friðsamleg mótmæli í Dallas í Texasleystust upp þegar leyniskytta hóf skothríð á lögregluþjóna, felldi fimm og særði níu.

Heimsbyggðin fékk ekki síður fregnir af því í gegnum Facebook Live en hefðbundna fjölmiðla. Svo mjög að áður en lögreglan réði niðurlögum leyniskyttunnar (með þjarki og sprengiefni!) kom hún á framfæri ákalli til almennings um að gefa ekki upp stað- setningu lögregluþjóna með þessum beinu útsendingum, skyttan kynni að fylgjast með.

* * *

Allt er þetta rækilega umhugsunarvert. Þarna er ljóslega á ferðinni nýjung í fjölmiðlun, sem getur verið þarfleg og jafnvel bráðnauð- synleg til þess að koma á framfæri sjónarvætti á ýmsu misjöfnu, ekki síst þegar stjórnvöld eiga í hlut.

En hinu er ekki að leyna að hún kann að orka tvímælis. Á allt erindi í beina útsendingu? Þar geta komið til ýmis trúnaðar- og einkalífssjónarmið, smekkvísi og vernd viðkvæmra.

Svo eru auðvitað réttindamálin órædd, listamenn og íþróttafélög vilja ekki að hver sem er sendi út frá viðburðum og hér að ofan var nefnt að lögreglan bað um að menn létu af útsendingum af viðkvæmum vettvangi. Mun hún biðja fallega næst?