Ekki verður leikið í Ensku úrvalsdeildinni fyrr en í fyrsta lagi seint í maí að því er Orri Hauksson forstjóri Símans greinir frá í ársfjórðungsuppgjöri sínu, en leikar voru stöðvaðar í deildinni í mars vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

„Enska úrvalsdeildin var stöðvuð í mars og engir leikir verða leiknir fyrr en í fyrsta lagi seint í maí, sem lækkar áskriftatekjur Símans á öðrum ársfjórðungi. Enn getur það gerst að tímabilið verði flautað af án frekari leikja, þótt ólíklegt sé, en í slíku tilfelli munum við gera kröfu um endurgreiðslu hluta sýningarréttarins. Við höfum þegar greitt fyrir stærstan hluta alls sýningartímabilsins, sem er 2019-2022,“ segir Orri meðal annars í tilkynningu með ársfjórðungsuppgjörinu.

Þrátt fyrir þetta hefur aukin heimaseta Íslendinga vegna samkomubanns og fjarlægðartakmarkana valdið því að viðskiptavinir Símans nýttu sér sjónvarpsþjónustu og gagnaflutningskerfi í mæli sem félagið hefur ekki séð fyrr og var álagið í hæstu hæðum.

Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi fjarskiptafélagsins jókst um 24,2%, eða nærri fjórðung, milli ára miðað við sama tíma fyrir ári, og fór hann úr 615 milljónum í 764 milljónir sem er hækkun um 149 milljónir króna. Á sama tíma jukust tekjurnar um 284 milljónir króna, eða 4,1%, úr 6.962 milljónum króna í 72.46 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.735 milljónum króna á 1F 2020 samanborið við 2.369 milljónir króna á sama tímabili 2019 og hækkar því um 366 milljónir króna eða 15,4% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 37,7% fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 en var 34,0% á sama tímabili 2019. Jákvæð áhrif af Símanum Sport styðja við hækkun EBITDA.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 3.734 milljónum króna á 1F 2020 en var 2.062 milljónir króna á sama tímabili 2019. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 3.396 milljónum króna á 1F 2020 en 1.711 milljónum króna á sama tímabili 2019.

Vaxtaberandi skuldir námu 15,8 milljörðum króna í lok 1F 2020 en voru 16,2 milljarðar króna í árslok 2019. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 14,7 milljarðar króna í lok 1F 2020 samanborið við 16,0 milljarðar króna í árslok 2019.

Hrein fjármagnsgjöld námu 270 milljónum króna á 1F 2020 en voru 313 milljónir króna á sama tímabili 2019.
Fjármagnsgjöld námu 256 milljónum króna, fjármunatekjur voru 47 milljónir króna og gengistap var 61 milljón króna.
Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 56,9% í lok 1F 2020 og eigið fé 37,4 milljarðar króna.

Orri Hauksson forstjóri Símans segir:

„Rekstur Símasamstæðunnar hefur gengið vel undanfarna fjórðunga og árið 2020 fór afar vel af stað. Auknar tekjur voru af sjónvarpsþjónustu okkar, en bæði nýleg áskriftarvara okkar, Síminn Sport, og helsta sjónvarpsvara Símans, Premium, skiluðu góðri viðbót frá fyrra ári. Tekjur af farsímaáskriftum og Þrennu jukust milli ára og tekjur af gagnaflutningi hjá samstæðunni eru í hóflegum vexti en talsími var áfram á sínum hæga ferli niður á við. Sensa átti fínan ársfjórðung en félagið jók tekjur og EBITDA lítillega frá fyrra ári. Rekstur Mílu var stöðugur að vanda.

Viðskiptavinir nýttu sér sjónvarpsþjónustu okkar og gagnaflutningskerfi í mæli sem við höfum ekki séð fyrr. Hefðbundnum símtölum í farsíma og talsíma fjölgaði einnig hratt þegar leið á fjórðunginn. Hafa ber í huga að aukin notkun núverandi viðskiptavina skilar jafnan litlum afkomubata þar sem mánaðarverð eru að mestu föst. Verð og fjöldatölur í fjarskiptageiranum þróast almennt hægt milli fjórðunga en flest í rétta átt í þessu tilfelli hjá okkur. Í lok fjórðungsins var álag á sjónvarps- og netkerfum félagsins í hæstu hæðum, en kerfin og þjónustan uppfylltu þó þarfir viðskiptavina nánast undantekningarlaust. Í heild er rekstrarniðurstaða fyrsta fjórðungs góð; tekjur, EBITDA, hagnaður og handbært fé frá rekstri jukust á milli ára.

Áhrif COVID-19 heimsfaraldursins komu með ýmsum hætti fram í starfseminni í mars. Tekjur af erlendum ferðamönnum svo gott sem gufuðu upp á nokkrum vikum auk þess að loka þurfti verslunum félagsins vegna sóttkvíar starfsmanna. Samskiptaver Símans hafa undanfarið verið að fullu rekin í fjarvinnu sem hefur gengið vel, þökk sé þolinmóðu starfsfólki í tækni og þjónustu, sem umbreytti heimilum sínum til að geta þjónustað viðskiptavini okkar. Almennt hafa Íslendingar unnið í stórum stíl heiman frá sér síðastliðnar sex vikur, sem breytti í einu vetfangi þörfum viðskiptavina okkar og aðferðum okkar sjálfra við að þjónusta þá.

Eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum munu faraldurinn og viðbrögð við honum hafa áhrif á afkomu og rekstur Símasamstæðunnar á árinu. Fjarskipti, stafræn afþreying og upplýsingatækni eru klárlega ekki þau svið atvinnulífsins sem viðkvæmust eru fyrir núverandi ástandi, en við finnum þó að sjálfsögðu fyrir því þegar hagkerfið snarbreytist. Þannig er talsverður hluti fjárfestinga samstæðunnar til að mynda í erlendri mynt og hluti rekstrarkostnaðar. Frá því gengi lækkar líður tími þar til innlend smásöluverð breytast til samræmis, reksturinn ber hallann á meðan. Vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands verka í gagnstæða átt og lækka fjármagnskostnað okkar umtalsvert á árinu. Reikitekjur eru nær engar um þessar mundir. Enska úrvalsdeildin var stöðvuð í mars og engir leikir verða leiknir fyrr en í fyrsta lagi seint í maí, sem lækkar áskriftatekjur Símans á öðrum ársfjórðungi. Enn getur það gerst að tímabilið verði flautað af án frekari leikja, þótt ólíklegt sé, en í slíku tilfelli munum við gera kröfu um endurgreiðslu hluta sýningarréttarins. Við höfum þegar greitt fyrir stærstan hluta alls sýningartímabilsins, sem er 2019-2022.

Vanskil viðskiptavina okkar eru ekki byrjuð að koma fram, en reynsla Símans af fyrri efnahagsáföllum er sú að nokkur tími líður þar til innheimta þyngist. Samstæðan er hlutfallslega ekki stór birgi ferðaþjónustunnar eða veitingahúsa á Íslandi. Snöggkólnun í þeim greinum kemur að litlum hluta fram hjá okkur til að byrja með, en mun þó rata merkjanlega til okkar eins og annarra. Hjá Símasamstæðunni eins og öðrum ríkir óvissa um það hvernig samkomur og ferðalög þróast á næstu vikum og mánuðum, en hvort tveggja mun hafa áhrif á tekjur okkar og gjöld. Miðað við fyrirliggjandi stöðu teljum við ekki ástæðu til að breyta útgefnum horfum enda svigrúm til að bregðast við í kostnaði og fjárfestingum félagsins.

Rétt er að nefna að undanfarin ár höfum við verið fremur íhaldssöm í fjárútlátum og lántöku. Þannig njótum við nú sterks efnahagsreiknings og sjálfbærs rekstrar. Staða handbærs fjár er traust og við eigum aðgang að lánalínum ef með þarf. Félagið er komið undir markmið þess um skuldsetningu og hefur félagið því nýtt sér heimild til að fresta afborgunum ársins til lokagjalddaga lána. Við höldum því áfram rekstri okkar, í takti sem er nokkuð breyttur, en þarfnast hvorki umbyltingar né endurfjármögnunar. Við teljum okkur því ágætlega í stakk búin til að takast á við óvissuna næstu misseri.“