Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 1,6% í dag og stóð við lok markaða í 576 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan lækkaði um 0,8% í gær en hækkaði strax við opnun í morgun en sáralítil velta var með hlutabréf í dag.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði einnig um 1,6% í dag og stendur nú í 225 stigum.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en Eimskipafélagið hækkaði um 33,% í dag og leiddi þar með hækkanir. Velta með bréf í félaginu nam þó aðeins um 40 þúsund krónum.

Föroya banki hækkaði þriðja daginn í röð, í dag hækkaði bankinn um 2% og hefur þá hækkað um 3,9% í þessari viku.

Icelandair Group leiddi lækkanir dagsins en félagið lækkaði um 30%. Þá lækkaði Marel um 2,3%.

Velta með hlutabréf var sáralítil eða aðeins 60 milljónir króna, sem verður að teljast til rólegri daga á hlutabréfamarkaði, en þar af voru rúmar 37,5 milljónir með bréf í Marel.

Þá var velta fyrir rúmar 14 milljónir króna með bréf í Icelandair Group en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf var þó töluverð í dag og nam 14 milljörðum króna.