Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,54% og er 5.433,40 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Viðskiptabankarnir þrír og Straumur-Burðarás hækkuðu snarpt við opnun markaðar en stuttu síðar lækkuðu þeir, mun meir en fyrrnefnd hækkun.

Bakkavör Group er eina félagið sem hækkaði í dag og nemur hækkunin 0,20%.

Kaupþing banki lækkaði um 4,47% en bankinn birti ársfjórðungsuppgjör sitt þann 27. apríl og jókst hagnaður bankans um 69,5% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við tímabilið í fyrra og er það mesti hagnaður í sögu bankans.

FL Group lækkaði um 4,12%, Landsbankinn lækkaði um 3,18% en bankinn birti fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt í dag og nam hagnaður bankans 17,3 milljörðum fyrir skatta samanborið við 7,4 milljarða króna á sama tímabili árið 2005, Dagsbrún lækkaði um 2,84% og Össur lækkaði um 2,74%.

Gengi krónunnar veiktist um 0,69% og er gengisvísitala hennar 130,13 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.