Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Framsóknarflokks, hefur komið víða við á starfsævinni. Hann er í hópi þeirra þingmanna sem hafa hvað mesta reynslu úr atvinnulífinu og hefur sjálfur verið ötull í fjárfestingum og frumkvöðlastarfi. Frosti var kjörinn á þing árið 2013.

Frosti er uppalinn í Reykjavík og byrjaði snemma að vinna fyrir sér. Hann tók mjög ungur þátt í að setja saman fyrstu PC vélarnar á Íslandi.

„Áður en ég fór í háskóla stofnaði ég tölvufyrirtækið Atlantis ásamt fleirum, að mig minnir um 1980. Þarna voru fyrstu PC tölvurnar frá IBM að koma á markað og þær voru afar dýrar. Atlantis sá tækifæri í að setja saman ódýrari PC vélar fyrir Ísland og þær seldust ágætlega. Ætli ég hafi ekki verið 18 ára þegar ég fór til Kaliforníu og gerði samninga við framleiðendur á hörðum diskum, móðurborðum og grafískum kortum. Síðan kom ég með sýnishornin heim og við settum saman frumgerðirnar. Það voru fyrstu samsettu íslensku tölvurnar. Ég stýrði síðan hugbúnaðardeildinni. Við íslenskuðum bókhaldskerfi og ritvinnslukerfi, sem keyrðu á MS-DOS,“ segir Frosti.

Hvernig gekk þetta fyrirtæki, Atlantis? Höfðuð þið eitthvað upp úr krafsinu?

„Við höfðum mikla reynslu upp úr krafsinu, þetta var vissulega skemmtilegt fyrirtæki en alls ekki ferð til fjár. Við kunnum ekki að reka fyrirtæki, myndi ég segja,“ segir Frosti, léttur í bragði.

Frosti er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .