Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,3% og er 4.295 skömmu eftir opnun markaðar. Veltan á fyrstu tíu mínútunum nemur 400 milljónum króna.  Krónan hefur styrkst um 0,9% og er 1542,6 stig, en gjaldeyrismarkaður opnaði fyrir meira en klukkustund, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Dow Jones fréttaveitan segir að orð Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafi haft  jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði. Í Hálffimm fréttum Kaupþings í gær er haft eftir Bernanke að fjárfestingabankar, sem og aðrir bankar, muni að öllum líkindum geta framlengt í lánum sínum við þarlend peningamálayfirvöld ef nauðsyn krefur þegar kemur að endurgreiðslum í september. Umræddir bankar eru m.a. Lehman Brothers og Merrill Lynch.

Helstu vísitölur í Evrópu eru grænar það sem af er degi, samkvæmt upplýsingum frá Euroland. Danska vísitalan OMXC hefur hækkað um  2,2%, norska vísitalan OBX hefur hækkað 1,4% og sænska vísitalan OMXS hefur hækkað um 1,7%, samkvæmt upplýsingum frá  Euroland.