Úrvalsvísitalan hélt áfram að lækka í vikunni og lækkaði nú um 5,8% en hafði í vikunni á undan lækkað um 42,2%.

Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 377 stigum en við lok markaða í gær stóð hún í 355 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Á meðfylgjandi myndi má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Þar sést hvernig Straumur leiddi lækkanir vikunnar með því að lækka um 21,4%. Þannig hefur félagið lækkað um 85,6% frá áramótum.

Exista stóð aftur á móti í stað í vikunni en í þar síðustu viku voru heimiluð viðskipti með bréf í félögunum á ný í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði, eða frá því að Fjármálaeftirlitið stöðvaði viðskipti með öll fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni þann 6. október s.l.

Exista hefur engu að síður lækkað mest allra félaga í Kauphöllinni frá áramótum eða um 99,7%.

Ekki var mikið um hækkanir félaga í vikunni en Össur hækkaði mest allra félaga eða um 1,8%. Þá hefur Össur lækkað minnst allra félaga frá áramótum eða um 0,2% (ekkert félag hefur hækkað frá áramótum).

Mesta veltan með bréf í Straumi aðra vikuna í röð

Heildarvelta með hlutabréf var í vikunni sem leið um 1,5 milljarðar króna og jókst lítillega frá fyrri viku.

Mest var veltan með bréf í Straum eða rétt rúmar 656 milljónir króna. Á fimmtudag og föstudag var tæplega 90% allra viðskipta með hlutabréf í Kauphöllinni með bréf í Straum.

Þá var velta fyrir tæpar 325 milljónir króna með bréf í Existu, rúmar 310 milljónir króna með bréf í Össur og rúmar 240 milljónir króna með bréf í Marel.