Úrvalsvísitalan lækkaði verulega í vikunni sem leið eða um 42,2% og hefur ekki verið lægri í rúm 14 ár.

Við lok markaða s.l. föstudag stóð vísitalan í 652 stigum en við lok markaða í gær stóð hún í 377 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Á meðfylgjandi myndi má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni í vikunni.

Þar sést hvernig Exista og Straumur leiddu lækkanir vikunnar en á þriðjudag voru heimiluð viðskipti með bréf í félögunum á ný í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði, eða frá því að Fjármálaeftirlitið stöðvaði viðskipti með öll fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni þann 6. október s.l.

Exista lækkaði strax um 97% þann daginn og um 98,7% í vikunni allri. Þá hefur Exista lækkað mest allra félaga í Kauphöllinni frá áramótum eða um 99,7%.

Þannig slær Exista út Eimskipafélag Íslands sem fram til þess hafði lækkað mest allra félaga frá áramótum. Eimskipafélagið hefur nú lækkað um 96,2% frá áramótum.

Straumur lækkaði einnig töluvert eftir að viðskipti hófust með bréf í félaginu á þriðjudag eða um 58,9%. Þá hefur félagið lækkað um 81,7% frá áramótum.

Century Aluminum hækkaði hins vegar mest allra félaga í vikunni en aðeins tvö félög hækkuðu einni í vikunni, Föroya banki og Össur.

Century Aluminum hækkaði um 54,4% en rétt er að hafa í huga að félagið hafði lækkað um tæp 30% síðustu fjórar vikur. Þá hefur Century Aluminum lækkað um 69,25% frá áramótum.

Mikil velta með bréf í Straumi strax á þriðjudag

Heildarvelta með hlutabréf var í vikunni sem leið tæpir 1,3 milljarðar króna en mest var veltan með bréf í Marel eða tæpar 460 milljónir króna.

Þá var velta fyrir rúmar 380 milljónir króna með bréf í Össuri og rúmar 350 milljónir króna með bréf í Straumi en strax á þriðjudag var velta með bréf í Straumi fyrir um 125 milljónir króna.

Úrvalsvísitalan nær 14 ára lágmarki

Eins og áður hefur komið fram lækkaði Úrvalsvísitalan verulega eftir að viðskipti með bréf í Existu og Straum voru heimiluð á ný á þriðjudag.

Þann dag lækkaði vísitalan um tæp 40% og fór í fyrsta skipti undir 500 stig frá því í lok september árið 1995 eða í 13 ár.

Þá hefur Úrvalsvísitalan ekki verið jafn lág og nú frá því um miðjan september árið 1994 eða í 14 ár.

Að lokum má geta þess að Úrvalsvísitalan var 6.144 stig í upphafi árs og hefur því lækkað um 93,9% frá áramótum. Þá hefur hún lækkað um 95,5% frá því að hún náði hámarki þann 18. júlí í fyrra eða 9.016 stigum.