Flugfélög út um allan heim munu líkast til tapa allt að 4,7 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári sem er nokkuð umfram fyrri spár um afkomu flugfélaganna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) gáfu út í morgun en í desember síðastliðnum sagði IATA að flugfélög á heimsvísu myndu líklega tapa um 2,5 milljörðum dala á þessu ári.

Í skýrslu IATA kemur fram að eftirspurn farþegar fari sífellt minnkandi og verulega hafi dregið úr sætanýtingu flugfélaga vegna þess ástands sem nú ríkir fjármálakerfum heimsins en samtökin gera ráð fyrir í það minnsta 5,7% fækkun farþega á árinu. Þá hefur eftirspurn eftir fraktflugi einnig minnkað umfram væntingar sem mun gera flugfélögum enn erfiðara um vik.

IATA gerir ráð fyrir að tekjur flugfélaga dragist saman um 12% á árinu og verði um 62 milljarðar dala en til samanburðar drógust tekjur flugfélaga á heimsvísu saman um 7% eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001.

IATA gerir aftur á móti ráð fyrir því að í lok þessa árs fari að rofa til á mörkuðum og í kjölfarið muni bæði sætanýting og fraktflutningar aukast nokkuð. Sá ferill gæti hins vegar orðið langur en samtökin vona að sumarið 2010 verði ágætt ferðasumar fyrir flugfélög.

Rétt er að hafa í huga að flugfélög á heimsvísu töpuðu um 8,5 milljörðum dala á síðasta ári en gífurleg hækkun eldsneytis á fyrri hluta ársins spilar þar stór hlutverk auk þess sem dregið hefur úr sætanýtingu frá miðju síðasta ári. Þá er sérstaklega tekið fram í skýrslu IATA að á síðustu þremur mánuðum síðasta árs hafi verulega dregið úr eftirspurn og nýtingu á viðskipta- og fyrsta farrými flugfélaga.