Þrátt fyrir að í neyðarlögum ríkisstjórnarinnar sé vikið að aðgerðum gagnvart íbúðalánum bankanna blasir við að útfærsla liggur ekki fyrir ennþá.

Að sögn Guðmundar Bjarnasonar, forstjóra Íbúðalánasjóðs, hafa starfsmenn sjóðsins þegar hafið vinnu að málinu og leitað svara við ýmsu.

Eitt sé að segja í einni setningu að Íbúðalánasjóður eigi að kaupa íbúðalán bankanna – annað að útfæra það. Enn er óljóst hvernig aðgerðin verður framkvæm, umfang hennar og útfærsla.

Að hluta til má segja að það skorti stjórnsýsluúrræði og er beðið reglugerðarsetningar frá félagsmálaráðherra. Sérfræðingar félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs hittast daglega til að vinna að útfærslu sagði Guðmundur.

Rétt er að hafa í huga að frumkvæði að kaupum sjóðsins á íbúðalánunum verður að koma frá fjármálastofnunum sjálfum. Guðmundur tók fram að sjóðurinn hygðist ekki fara inn í bankana til að yfirtaka bréf eða sölsa undir sig að eigin frumkvæði. Þarna er um það að ræða að sjóðurinn fái þessa heimild, sé eftir því óskað.

Eins og gefur að skilja hafa menn verið uppteknir við ýmislegt annað hjá bönkunum undanfarið en Guðmundur sagðist gera ráð fyrir að skriður kæmist á þessi mál innan skamms.

Sama má segja um sparisjóðina sem eru að meta sína stöðu og hverjir lifi þetta af. Sparisjóðirnir eru hins vegar þeir einu sem hafa leitað til Íbúðalánsjóðs með fyrirspurnir enda má segja að þeir hafi þrátt fyrir allt verið starfhæfastir að undanförnu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag, þar sem farið er í orsakir og afleiðingar fjármálakreppunnar á Íslandi. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .