Fasteignasala hefur aldrei verið minni í Bandaríkjunum en í júlí. Samkvæmt frétt Bloomberg féll sala á íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum þrátt fyrir lækkað fasteignaverð. Verðbréf hafa fallið í kjölfar þessara fregna. Féll salan um 12% frá því í júní og seldust 176.000 íbúðir í júlímánuði. Það er minnsta sala íbúða sem mælst hefur síðan regluleg skráning hófst árið 1963.

Samkvæmt upplýsingum sem Bloomberg vitnar til frá viðskiptaráðuneytinu í Washington var meðalverð á íbúðum 204 þúsund dollarar. Það er lægsta meðalverð sem sést hefur síðan 2003.

Ástæða sölutregðu á íbúðum er rakin til mikils atvinnuleysis sem leitt hafi til minni eftirspurnar. Þá berjist byggingarfyrirtæki við fjallháan stabba af óseldum nýjum íbúðum sem leitt hafi til lækkunar fasteignaverðs.

Ryan Sweet hagfræðingur hjá Moody’s segir að fasteignamarkaðurinn hafi tekið stórt skref afturábak. Líklegir kaupendur sitji sem fastast a hliðarlínunni á meðan atvinnuleysið sé nærri tveggja stafa tölu.