Áætlað er að 8,2 milljarðar króna renni til Íbúðalánasjóðs af 154 milljarða bankaskatti á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem voru birt í morgun.

Gert er ráð fyrir að tekjur af bankaskattinum nemi 154 milljörðum yfir fjögurra ára tímabil og að samtals 92 milljarðar séu eyrnamerktir skuldalækkuninni. Þar af fara 80 milljarðar í lækkun skulda, 72 milljarðar í lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána og 8 milljarðar vegna áfallinna vaxta og verðbóta, uppgreiðsluákvæða skuldabréfa og mismunar markaðs- og nafnvirðis lánanna.

12 milljarða af þessum 92 á svo að nota til að tryggja fulla fjármögnun aðgerðanna. Þar af fara 1,8 milljarðar til að mæta áætluðu tekjutapi ríkissjóðs vegna hækkunar framlags í séreignarlífeyrissparnað úr 2% í 4% á þessu ári og 2 ma.kr. vegna almenns kostnaðar við framkvæmd aðgerðarinnar. Átta milljarðar fara svo til Íbúðalánasjóðs vegna hraðari uppgreiðslu lána og öðrum ófyrirséðum kostnaði sem af aðgerðinni gæti hlotist.

Tekjur af bankaskattinum eru hins vegar meiri eða sem nemur 62 milljörðum umfram þá 92 milljarða sem tengjast skuldaaðgerðinni. Segir í Peningamálum að þessir 62 milljarðar séu hluti af almennri tekjuöflun ríkissjóðs og tengist því ekki þeirri aðgerð sem er fjallað um.