Íbúðalánasjóður hefur frá áramótum selt 783 íbúðir og átti hann í lok júní 2.054 fasteignir um land allt. Þeim fækkaði um 42 frá í maí. Til viðbótar seldi sjóðurinn 72 eignir í júní. Á móti bættust 30 eignir við eignasafnið í mánuðinum, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs . Samtals hafa 232 fullnustueignir bæst við í eignasafn Íbúðalánasjóðs frá áramótum.

Til samanburðar seldi Íbúðalánasjóður 113 fasteignir á sama tíma í fyrra. Í sölumeðferð eru nú 1.011 fasteignir og eru þær í sölu hjá fasteignasölum.

Auk þeirra eigna sem sjóðurinn hefur selt er búið að samþykkja kauptilboð í 209 fasteignir til viðbótar og er nú unnið að fjármögnun kaupanna.

Samtals hefur Íbúðalánasjóður selt 1.666 eignir frá ársbyrjun 2008, að því er segir í skýrslunni.