Íbúða­lánasjóður hefur fækkað eignum sínum um 834 eða tæplega fjörutíu prósent á síðustu tveimur árum, þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag . Samkvæmt fréttinni voru í lok mars 2016, 1.287 eignir í eigu Íbúðalánasjóðs samanborið við 2.121 í mars árið 2014. Stefnir sjóðurinn að því að þær verði 750 í árslok. Meirihluti íbúðanna var seldur einstaklingum.

Íbúðalánasjóður hefur selt mikið af eignum sínum að undanförnu. Í desember síðastliðnum voru svo 504 eignir í fimmtán eignasöfnum settar í söluferli og rann tilboðsfrestur út þann 3. febrúar síðastliðinn. Í síðustu viku var tilkynnt að nú þegar hafi Íbúðalánasjóður og Heimavellir náð samkomulagi um sölu á 139 þeirra íbúða.

Á síðustu tveimur árum hefur íbúðum Íbúðalánasjóðs á öllu landinu fækkað mismikið eftir landshlutum, eða um fimm til fimmtíu og þrjú prósent. Í viðtali við Fréttablaðið segirsegir Ágúst Kr. Björnsson, forstöðumaður fullnustueigna Íbúðalánasjóðs, að sala eigna hafi tekið vel við sér á flestum markaðssvæðum í landinu en þó misfljótt. Nú sé lífleg sala nánast um land allt en mismikil þó eftir landsvæðum.

Eignir á Suðurnesjum hafa selst sérstaklega vel og hefur íbúðum í eigu sjóðsins fækkað um 432 á svæðinu á tímabilinu. Ágúst segir að mikil eignasala á Suðurnesjum tengist að líkindum sterkara atvinnulífi, uppbyggingu í ferðamannaþjónustu og fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli. Til stendur að selja níu hundruð eignir á árinu 2016.