Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 309,2 stig í mars sl. og hækkaði um 0,4% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Vísitalan hefur þá hækkað í þrjá mánuði í röð og um tæp 2% á milli ára. Þess má geta að vísitala íbúðaverðs hefur ekki hækkað í þrjá mánuði í röð frá því í lok árs 2007.

Á myndinni hér að ofan má sjá þróun vísitölu íbúðaverðs síðastliðin þrjú ár. Eins og sjá má hefur vísitala sveiflast nokkuð síðastliðið ár. Einnig sést hvernig vísitalan hefur lækkað umtalsvert frá byrjun árs 2008, þegar hún náði algjöru hámarki, þó vissulega hafi hún tekið sveig upp á við frá þeim tíma, t.d. í ágúst í fyrra og sl. vor. Þannig hefur íbúðaverð lækkað um 13,8% á föstu verðlagi síðan í janúar 2008 þegar vísitalan náði hámarki (357,4 stigum).

Síðastliðna 3 mánuði hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 2,2% en síðastliðna 6 mánuði hefur hún lækkað um 1,7%.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.