Bandaríski milljarðamæringurinn Carl Icahn er sagður hafa samþykkt að leggja hlutabréf upp á þrjá milljarða dala, jafnvirði tæpra 360 milljarða króna, að markaðsvirði til fjárfestingarfélagsins Sargon sem sonur hans stýrir í félagi við annan mann.

Sonur Carls Icahn heitir Brett og verður 33 ára í mánuðinum. Hann hefur síðustu misserin stýrt eignum upp á 300 milljónir dala ásamt samstarfsfélaga sínum. Eignirnar eru sömuleiðis í eigu Carls.

Carl Icahn er einn af auðugustu einstaklingum Bandaríkjanna. Hann á 90% hlut í eignarhaldsfélaginu Icahn Enterprises. Eignir félagsins nema um 24 milljörðum dala. Á meðal eigna félagsins eru spilavíti, olíuhreinsunarstöð og framleiðandi varahluta í bíla.

Eins og Bloomberg-fréttaveitan greinir frá málinu horfir Icahn á málið sem svo að sonur eigi að sanna sig áður en hann tekur við fjárfestingarfélagi föður síns. Samkomulagið um fjárveitinguna rennur út eftir fjögur ár þegar Carl Icahn verður áttræður.

Miðað við umfjöllun fréttaveitunnar hefur Carl Icahn talsverða trú á syni sínum en fyrir áratug réð hann Brett sem greinanda hjá fyrirtæki sínu. Brett var á þeim tíma 23 ára. Fyrir tveimur árum lagði Carl og félaga hans til 300 milljónir dala til að gera félagi þeirra kleift að fjárfesta í hlutabréfum og skuldabréfum.

Bloomberg bendir á að ávöxtun Sargon hafi verið ágæt upp á síðkastið. Eignasafn félagsins hefur skilað 100% ávöxtun frá upphafi. Þar af nemur ávöxtunin 96% á fyrri hluta þessa árs.