Baugur hyggst greiða hluthöfum í verslunarkeðjunni Iceland 19,3 milljarða króna (150 milljónir punda)  í arð  í byrjun næsta árs vegna góðs gengis Iceland keðjunnar á árinu og góðrar afkomu, segir í frétt breska blaðsins The Times.

Meðal hluthafa eru Malcom Walker, sem ásamt öðrum stofnaði Iceland, Pálmi Haraldsson, Landsbankinn og Kaupþing, sem munu með arðgreiðslunni fá ríflega ávöxtun á upprunalegrafjárfestingu sína í félaginu.

Stærstu fjárfestar í Iceland  hafa nú þegar fengið eina greiðslu á þessu ári þegar keðjan endurfjármagnaði sig fyrr á árinu og borgaði niður skuldir fyrir 70 milljónir punda, eða um níu milljarða króna, segir í fréttinni.

Staða Iceland keðjunnar verður að öllum líkindum góð nú í lok ársins en væntingar standa til um að afkoma Iceland verði jákvæð um sjö milljónir punda á þessu ári (902 milljónir króna) sem er viðsnúningur frá síðasta rekstrarári þegar afkoman var neikvæð um 25 milljónir punda ( 3,2 milljarða króna).

Viðsnúninginn í rekstri má rekja til þess að starfsfólki í stjórnstöð hefur verið fækkað úr 1.400 í 600, búðir sem skiluðu ekki hagnaði hafa verið seldar og þá hefur salan aukist um 20% í kjölfar breytinga sem miðuðust við að einfalda vöruúrval.