Icelandair hefur bætt við flugframboð félagsins á þessu ári frá því sem áður hefur verið kynnt. Gera má ráð fyrir því að farþegar Icelandair verði um 3 milljónir á árinu 2015, en áður hafði verið gert ráð fyrir 2,9 milljónum farþega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Næsta sumar hefur verið bætt við sex vikulegum flugum og þannig aukið framboð á áfangastaðina Seattle, Vancouver, New York Newark, London Gatwick, París, Amsterdam og Zurich.

Næsta haust, þ.e. í október, nóvember og desember, er tíðni ennfremur aukin á ýmsa áfangastaði, en sérstök athygli er vakin á því að flug til Minneapolis er framlengt um þrjá mánuði. Gert er ráð fyrir að flogið verði til borgarinnar þar til um miðjan janúar 2016 en áður hafði verið gert ráð fyrir vetrarhléi á fluginu frá miðjum október.

Í sumar verða 24 Boeing 757 farþegaþotur nýttar fyrir áætlunarflug félagsins, einni fleiri en áður hefur verið kynnt.