*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 9. desember 2019 18:09

Icelandair frestar flugi eftir hádegi

Öllu flugi til Íslands frá Evrópu á morgun hefur verið seinkað sem og brottför frá landinu seinnipartinn aflýst.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vegna yfirvofandi óveðurs á morgun hefur Icelandair gripið til fyrirbyggjandi aðgerða sem hafa áhrif á yfir 4000 farþega. Þannig hefur flugi til og frá landinu seinni partinn á morgun verið seinkað eða aflýst.

Hins vegar er gert ráð fyrir að allt flug til Evrópu verði á áætlun í fyrramálið. Öllu flugi frá Evrópu til Íslands á morgun verið seinkað en gert er ráð fyrir að brottför þeirra frá Evrópu verði við fyrsta tækifæri á miðvikudagsmorgun.

Tengifarþegar sem eru á leið frá Evrópu til Norður Ameríku verða hins vegar endurbókaðir með öðrum flugfélögum. Þá hefur öllum brottförum frá Keflavík seinnipartinn verið aflýst, það er bæði flugi til Evrópu og Bandaríkjanna. Icelandair segist þegar hafa haft samband við farþega vegna endurbókunar en 170 farþegar þáðu boð félagsins um að flýta brottför til dagsins í dag.

Þrátt fyrir það verða um erlendir 520 farþegar sem eiga flug til Evrópu og Bandaríkjanna seinnipartinn á morgun áfram hér á Íslandi og mun Icelandair útvega þeim hótelgistingu. Þar að auki er verið að vinna í því að endurbóka tengifarþega sem eiga bókað frá Bandaríkjunum til Evrópu á morgun með öðrum flugfélögum.

Búast áfram við seinkunum á miðvikudag

Miðað við núverandi veðurspá, er vonast til að flug verði að mestu leyti á áætlun frá Keflavík á miðvikudagsmorgun en þó ert gert ráð fyrir einhverjum seinkunum, t.d. til Manchester og Osló.

Félagið segist hafa upplýst alla farþega um röskunina og verið sé að vinna að endurbókun. Farþegar muni fá senda uppfærða ferðaáætlun í tölvupósti en geta einnig fylgst með  á heimasíðu Icelandair.

Þar séu flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggji fyrir en farþegar geti jafnframt uppfært netföng og símanúmer sín þar, þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega.