Icelandair Group hefur ákveðið að efla ferðaþjónustustarfsemi innan félagsins og hefur ráðið Hörð Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Ferðsskrifstofu Íslands til stjórnarsetu í félögum innan Icelandair Group.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Við sjáum mikil tækifæri fyrir Icelandair Group á þessum markaði og teljum okkur hafa þekkingu, reynslu og tækjakost til þess að geta á stuttum tíma náð góðum árangri og markaðshlutdeild," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

Hann segir að hingað til hafi ekki verið lögð áhersla á almenna ferðaskrifstofustarfsemi innan Icelandair Group

„Hörður Gunnarsson er þrautreyndur á þessu sviði og honum er ætlað stýra uppbyggingu þessarar starfsemi innan Icelandair Group. Við sjáum fyrir okkur ýmiskonar samlegðaráhrif innan samstæðunnar í skipulagningu ferða utan- sem innanlands m.a. í nýtingu á flugvélum,“ segir Björgólfur.

Hörður mun taka sæti í stjórnum félaga sem lúta að ferðaþjónustustarfsemi Icelandair Group og mun meðal annars gegna stjórnarformennsku í Iceland Travel sem er sérhæft þjónustufyrirtæki í mótttöku erlendra ferðamanna.

Í tilkynningunni kemur fram að Hörður mun vinna að því með núverandi stjórnendum að útvíkka ferðaþjónustustarfsemi Icelandair Group bæði í mótttöku erlendra ferðamanna og skipulagningu ferða fyrir Íslendinga og mun Iceland Travel, eða dótturfyrirtæki þess, taka að sér framleiðslu á skipulögðum hópferðum fyrir Íslendinga í afþreyingarferðir.