Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um 1,48% í 470 milljóna króna viðskiptum með hlutabréf félagsins í Kauphöllinni í dag. Gengið hlutabréfa félagsins stendur nú í 17,10 krónum á hlut og hefur það ekki verið hærra síðan undir lok september árið 2008 þegar fjármálamarkaðir og gengi hlutabréfa var á hraðri niðurleið.

Þegar verst lét í hremmingum á mörkuðum fór gengi hlutabréfa Icelandair Group niður í rétt rúma 1,8 krónu á hlut. Það var í október árið 2009. Síðan þá hefur gengið hækkað um rúm 800%. Gengi hlutabréfa félagsins stóð í 8,22 krónum á hlut um síðustu áramót og hefur það miðað við gengið í dag hækkað um 108% síðan þá.