Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3% í 2,0 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Icelandair, eða um 535 milljónir, sem hækkuðu um 1,7% í viðskiptum dagsins. Gengi Icelandair, sem birti ársuppgjör á fimmtudaginn stendur nú í 2,14 krónum og er um 33% hærra en í byrjun árs.

Alvotech hækkaði um 2,0%, mest af félögum aðalmarkaðarins, í 117 milljóna viðskiptum. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.800 krónum.

Gengi Íslandsbanka hækkaði um hálft prósent í 110 milljóna veltu og stendur í 120,6 krónum. Hlutabréfaverð Kviku féll um 0,3% og er nú í 19,3 krónum.

Fjögur félög á aðalmarkaðnum – Síminn, Ölgerðin, Síldarvinnslan og Skel – lækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Það var þó tiltölulega lítil velta með bréf umræddra félaga.