*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 18. janúar 2021 17:05

Icelandair hækkar um 4%

Úrvalsvísitalan nær nýju sögulegu hámarki en 80% hlutabréfaviðskipta voru með þrjú félög, þar af fjórðungur með bréf Arion.

Ritstjórn

Icelandair hækkar mest í næstmestu viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði, eða um 4% í 397,7 milljóna króna viðskiptum, og nam lokagengi bréfa flugfélagsins 1,56 krónum.

Mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 533,8 milljónir króna, í næst mestu hækkun með bréf í einu félagi á hlutabréfamarkaðnum í dag, eða 2,19%, upp í 98,10 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var með bréf Marel, eða um 2,07%, upp í 840 krónur, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi eða fyrir 369,7 milljónir króna.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Reginn, eða um 1,95%, niður í 22,60 krónur í 38 milljóna króna viðskiptum. Sjóvá lækkaði næst mest eða um 1,46%, niður í 30,45 krónur í 37 milljóna króna viðskiptum og loks lækkuðu bréf annars tryggingafélags, Sýnar um 1,19%, sem var þriðja mesta lækkunin. Fóru bréfin niður í 37,45 krónur í 8 milljóna króna viðskiptum.

Gengi íslensku krónunnar og evrunnar stóð í stað annan daginn í röð í viðskiptum dagsins, og fæst evran nú á 156,08 krónur. Bandaríkjadalur styrkist hins vegar gagnvart krónunni, eða um 0,22%, upp í 129,29 krónur, meðan breska pundið veikist eilítið eða um 0,03%, niður í 175,44 krónur.