Icelandair mun frá og með næstu mánaðamótum bjóða farþegum nýtt farrými um borð í flugvélum sínum, Economy-plus.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að Economy-plus farrýmið er fyrir aftan SagaClass farrýmið í flugvélum Icelandair. Sætin eru þau sömu og í almennu farrými, en aðeins er selt í fjögur sæti af sex í hverri sætaröð og því er miðjusætið jafnan laust og eykur rými fyrir farþegana.

„Um er að ræða nýjan valkost - farrými með aukinni þjónustu og meira rými fyrir hvern farþega en í almennu farrými,“ segir í tilkynningunni en jafnframt kemur fram að í tengslum við þessa breytingu gerir Icelandair einnig breytingar á fargjaldaflokkum sínum og er sala samkvæmt nýja fyrirkomulaginu þegar hafin.

Þá kemur fram að nýja farrýmið er hluti af gagngerum breytingum sem Icelandair gerir á þessu ári á flugvélum sínum og þjónustu.

„Ný leðursæti eru sett í allar flugvélar félagsins og sætabil er aukið frá því sem verið hefur. Í hverju sæti er fullkomið afþreyingarkerfi með fjölda skemmtiþátta og kvikmynda farþegum að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningunni.

„Þá er gerðar ýmsar breytingar á þjónustu fyrirtækisins og ásýnd þar sem lögð er áhersla á sérstöðu Icelandair sem íslensks flugfélags.“

Þá kemur fram að þessar breytingar taka gildi 1.nóvember verða kynntar nánar á næstunni

„Nýtt farrými er hluti af þeirri viðleitni okkar að veita farþegum okkar, einkum þeim sem ferðast í viðskiptaerindum, aukinn sveigjanleika og betri þjónustu", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Við erum að bregðast við óskum viðskiptavina hér á Íslandi og í flugi milli Evrópu og Ameríku, sem þekkja svona farrými hjá öðrum alþjóðaflugfélögum, og kjósa betri þjónustu og meira rými en boðið er upp á í hefðbundnu almennu farrými".