Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkaði um 3,3% í 148 milljóna viðskiptum í Kauphöllinni í dag en gengi bréfa félagsins hafa nú lækkað um 9,3% það sem af vikunni. Leiða má líkum að því að lækkun vikunnar skýrist af áhyggjum markaðsaðila um áhrif kórónaveirunnar á bæði heimshagkerfið og félagið sjálft enda gæti farið svo að nokkrar þúsundir kínverskra ferðamanna muni ekki koma til landsins vegna veirunnar. Þá hafa fréttir um jarðhræringar á Reykjanesi einnig haft neikvæð áhrif á gengi bréfa félagsins.

Segja má að rautt hafi verið yfir hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag en alls lækkuðu 14 félög í verði í viðskiptum dagsins sem námu rúmlega 1,7 milljörðum. Þá lækkaði Úrvalsvísitalan um 0,87% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 2049,4 stigum en hún hefur lækkað um 2,2% það sem af er vikunni.

Næst mest lækkun í viðskiptum dagsins var á bréfum Skeljungs sem lækkuðu um 1,63% í 219 milljóna viðskiptum og þá lækkuðu bréf Kviku um 1,21% í 95 milljóna viðskiptum.

Þau bréf sem hækkuðu í viðskiptum dagsins hækkuðu lítið en mest hækkun varð á bréfum tryggingafélaganna VÍS og TM sem hækkuðu um bæði um 0,2%.

Mest velta var svo með bréf Marel sem lækkuðu um 1,21% 389 milljóna viðskiptum.

Velta á skuldabréfamarkaði nam 7,7 milljörðum í viðskiptum dagsins en segja má að verðbólgutölur sem birtust í morgun hafi haft áhrif á markaðinn. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um 5-8 punkta á meðan ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hækkaði um 4 punkta.