Hlutabréf Icelandair lækkuðu um 6,18% í 45 milljón króna viðskiptum dagsins. Heldur rólegt var að öðru leyti í hlutabréfaviðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, sem námu samtals 1,3 milljörðum króna.

Úrvalsvísitalan hækkaði um slétt 1%, en mest hækkuðu bréf Eimskipa um 3,91% í örlitlum 200 þúsund króna viðskiptum. Þar á eftir komu bréf Arion banka með 3,82% hækkun í  313 milljóna viðskiptum.

Að Icelandair undanskildu var mesta lækkunin hjá bréfum TM sem féllu um 1,83% í 22 milljóna króna viðskiptum, en þarnæst komu bréf Kviku og VÍS, bæði með 0,93% lækkun í 41 og 8 milljón króna viðskiptum.

Mest viðskipti voru með bréf Festis sem hækkaði um 3,28% í 318 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir komu bréf Arion banka, og þar á eftir Marel með 144 milljón króna viðskipti sem skiluðu bréfum þess 0,17% lækkun.