*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Innlent 8. júlí 2018 19:08

Icelandair lækkar afkomuspá um 30%

Miðað við fyrirliggjandi forsendur áætlar félagið að EBITDA ársins 2018 verði á bilinu 120-140 milljónir USD.

Ritstjórn
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Núverandi horfur í rekstri Icelandair Group á árinu 2018 eru lakari en félagið hafði gert ráð fyrir. Miðað við fyrirliggjandi forsendur áætlar félagið að EBITDA ársins 2018 verði á bilinu 120-140 milljónir USD. Þrátt fyrir að uppgjöri sé ekki lokið er ljóst að afkoma annars ársfjórðungs verður lakari en áður hafði verið áætlað. Talsvert rask hefur átt sér stað í flugáætlun Icelandair undanfarnar vikur, seinkun á innleiðingu flugvéla, veðurfar o.fl. hafa valdið auknum kostnaði auk þess sem tekjur hafa tapast.  Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til kauphallarinnar. Þessi nýja afkomuspá er tæpum 30% lægri en sú sem áður hafði verið gefin út.

Samhliða frumvinnu við drög að uppgjöri annars ársfjórðungs hefur félagið greint forsendur afkomuspár fyrir síðari hluta ársins. Spár félagsins um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað um 50% á seinustu 12 mánuðum. Af þeirri ástæðu hefur félagið ákveðið að lækka tekjuspá félagsins fyrir síðari hluta ársins. Töluverðar afbókanir hafa verið hjá hópum hjá Iceland Travel vegna minnkandi samkeppnishæfni Íslands sem mun valda lakari afkomu í þeim rekstri á þessu ári. Þá hefur mikil framboðsaukning yfir Atlantshafið á nokkrum lykilmörkuðum félagsins haft áhrif á verðþróun á háönn. Á þessu ári er félagið jafnframt að fjárfesta í nýjum áfangastöðum til að styrkja leiðakerfið til lengri tíma. Bókanir fara hægar af stað á þessum stöðum en gert var ráð fyrir sem hefur neikvæð áhrif á afkomu þessa árs.

Til lengri tíma eru horfur í rekstri félagsins góðar samkvæmt tilkynningunni; vöxtur er á flestum mörkuðum félagsins, félagið er fjárhagslega sterkt og með góða stöðu á mörkuðum. Við birtingu fyrsta ársfjórðungs kynnti félagið markmið um að það skili yfir 7% EBIT hlutfalli til engri tíma litið, frá og með árinu 2019. Það markmið er óbreytt.

„Sú staða sem við erum að horfa upp á núna er okkur talsverð vonbrigði. Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins. Verðþróun á mikilvægum áfangastöðum hefur ekki verið eins og áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og það hefur neikvæð áhrif á rekstrarspá. Horfur hafa farið versnandi í íslenska ferðaþjónustuhlutanum, sérstaklega hjá Iceland Travel. Þær miklu skipulagsbreytingar sem félagið hefur gengið í gegnum undanfarið ár hafa að mestu gengið vel og gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða í rekstrinum til að styrkja það til framtíðar. Árið 2018 er ár mikilla breytinga og fjárfestinga sem gera félaginu kleift að vaxa og dafna" er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group í tilkynningunni. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is